Hetjuspilið varð til við starf mitt sem leiðbeinandi og síðar leikskólakennari og nám mitt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Í B.Ed verkefni mínu skrifaði ég um sköpun og kenningar um kennslufræðilegt gildi spilsins og í M.Ed verkefninu mínu framkvæmdi ég rannsókn þar sem ég fór ég á vettvang og kenndi þremur kennurum að spila spilið með þremur barnahópum. Tilgangur þeirrar rannsóknar var að meta kennslufræðilegan ávinning Hetjuspilsins út frá upplifun og reynslu kennarana og barnanna.
Kennslufræðin á bak við Hetjuspilið byggir fyrst og fremst á leik sem námsleið í lífi barna. Í byrjun 20. aldar fóru fræðimenn á sviði menntavísinda að velta því betur fyrir barnæsku og með hvaða hætti börn læra. Með tímanum varð litið á leik sem helstu námsleið ungra barna og ýmsir fræðimenn gerðu tilraunir til að skilgreina formgerðir leiks. Án þess að fara of djúpt í allar þær skilgreiningar hér þá má er gjarnan talað um einleik barna þar sem börn leika sér ein síns liðs. Þessi formgerð leiks er sérstaklega algeng þegar börn eru mjög ung. Síðan af þessari formgerð tekur við samhliða leikur en þar leika börn ein en í sama rými og eiga lítil samskipti. Þessa formgerð leiks má oft sjá á yngstu deild í leikskóla.
Með aldrinum verður leikur barna félagslegri og þau byrja að stunda félagslegan leik, hlutverkaleik og félagslegan hlutverkaleik. Rannsóknir á félagslegum hlutverkaleik barna hafa leitt í ljós að samskiptin sem þau eiga í þeim leikjum eru börnunum mikilvæg og leikurinn er þýðingarmikill fyrir þau. Í rökstuðning mínum á bak við mögulegan ávinning Hetjuspilsins legg ég fram þá kenningu að í þessari þróun formgerða leiks þá eru hlutverkaspil næsta stig á eftir félagslegum hlutverkaleik. Hinsvegar þá eru flest hlutverkaspil á markaðnum í dag ekki við hæfi barna á aldrinum 5-9 ára vegna þess hversu flókin þau eru eða ógnvekjandi eða óviðeigandi myndskreytinga.

Þetta er helsta ástæðan fyrir því að ég hóf hönnun Hetjuspilsins og í gegnum árin fann ég ýmsar leiðir sem að spilið getur ýtt undir þroska barna. Það var fljótt augljóst að öll munnlegu samskiptin í spilinu meðal barnanna og kennarans hafa mjög jákvæð áhrif á málþroska barnanna. Það að þurfa að lýsa því hvernig þú læðist framhjá sofandi trölli eða hvernig þú bræðir ísvegg vondu ísdrottingarinnar krefst notkunar fjölbreytts orðaforða og veitir góða æfingu í málnotkun. Það var einnig augljóst að Hetjuspilið hefur jákvæð áhrif á félagsþroska barna og hæfileika þeirra til að eiga jákvæð samskipti sín á milli. Eins og ég nefndi hér áður þá er leikur mjög þýðingarmikill í augum barna og rannsóknir á leik barna sýna að samböndin og samskiptin úr leiknum smitast oft út í aðra anga lífs þeirra.
Í ævintýrunum Hetjuspilsins þurfa börnin að vinna saman og nota hæfileika sína til að hjálpast að. Það var lengi kenning mín að þegar barn grípur hendi annars barns rétt áður en það dettur ofan í virkt eldfjall eða aðstoðar annað barn við að taka í lurginn á hinum ógurlega rusladreka þá skapast þar jákvæð tenging milli barnanna sem þarf ekki að taka enda þó spilastundin endi. Ævintýri Hetjuspilsins ýta undir þessar aðstæður þar sem að sögupersónurnar sem börnin leika hafa allar sína styrkleika og veikleika sem bæta upp fyrir hvorn annan. Þessi hlið spilsins sækir innblástur í fjölgreindakenningu Howard Gardners þar sem allir eru góðir í einhverju en enginn er góður í öllu.

Rannsóknin sem ég framkvæmdi í meistaraverkefni mínu staðfesti margar kenningar mínar um kennslufræðilega kosti Hetjuspilsins en helstu niðurstöður hennar voru að kennararnir og börnin höfðu jákvæða reynslu af spilinu og kennararnir sáu ýmsa kennslufræðilega möguleika í spilinu. Kennararnir sáu framfarir í mál- og félagsþroska barnanna á rannsóknartímabilinu en áttu erfitt með að meta með nákvæmni hlutverk spilsins í þeim framförum. Þátttakendur greindu frá félagslegum hliðum spilsins og sjá mátti félagsleg áhrif spilsins utan spilastundanna. Niðurstöður benda til að hlutverkaspilið gagnist best sem kærkomin viðbót við hefðbundið leikskólastarf og sé dýrmæt reynsla fyrir börnin.
Fyrir áhugasama þá má nálgast B.Ed og M.Ed ritgerðirnar sem fjalla betur um fræðilegan ávinning Hetjuspilsins á þessum hlekkum.
B.Ed ritgerðin https://skemman.is/bitstream/1946/34156/1/Hetjuspili%c3%b0-Fe%cc%81lagsf%c3%a6rni%20og%20ma%cc%81lo%cc%88rvun%20i%cc%81%20hlutverkaspilum.pdf
M.Ed ritgerðin https://skemman.is/bitstream/1946/39526/1/Hva%c3%b0%20vilji%c3%b0%20%c3%bei%c3%b0%20gera_%20Vi%c3%b0horf%20leiksko%cc%81lakennara%20og%20barna%20til%20hlutverkaspila%20i%cc%81%20leiksko%cc%81lastarfi-Gunnar%20Kristinn%20%c3%9eorgilsson.pdf
Einnig gæti verið gaman fyrir áhugasama að hlusta á hlaðvarpsþáttinn Límónutréð þegar ég kem fyrir og tala um Hetjuspilið https://www.mbl.is/hladvarp/hlusta/limonutred/thattur/a2e90576340c997db62c03efdfad3d66/
